Steingrímur Birgisson er fæddur í Reykjavík en á ættir að rekja til Akureyrar og Ísafjarðar. Hann lauk námi í viðskiptafræði árið 1989, en flutti svo til Akureyrar og hóf störf hjá Höldi - Bílaleigu Akureyrar árið 1991. „Ég er búinn að vera svolítið lengi. Ég er að verða eins og leigubílstjórinn, þessi sem var búinn að vera í 25 ár, og gott betur,“ segir hann.

Steingrímur er nú forstjóri fyrirtækisins og segir að því gangi nokkuð vel þessi misserin. „Það er náttúrulega búinn að vera mikill uppgangur í ferðaþjónustunni og mikið um að vera. Þessi geiri er náttúrulega mjög sveiflukenndur og að mörgu leyti erfiður og þær eru margar ógnanirnar sem geta steðjað að, bæði í ytra og innra umhverfi.“

Vaxtastigið skiptir gríðarlegu máli

„Stjórnvöld og náttúran eru sennilega tveir erfiðustu þættirnir að etja við þarna. Þetta er mjög fjárfrek starfsemi, mikil árleg fjárfestingarþörf vegna endurnýjunar á flota og vaxtastig skiptir okkur því gríðarlegu máli. Það hefur gengið ágætlega en afkoman sem slík er ekkert rosaleg í þessari grein. Það er gríðarleg samkeppni og afkoman er í rauninni allt of lág miðað við veltu.

Við höfum samt náð að skila hagnaði og byggja fyrirtækið upp og þá erum við sátt. Hver einasta króna hefur farið í að byggja fyrirtækið upp og búa enn frekar í haginn fyrir framtíðina. Við erum ekki að lepja dauðann úr skel, okkur hefur gengið vel og við höfum rekið fyrirtækið með hagnaði frá hruni. En hrunárið fræga var mjög slæmt.“

Ferjuðu fólk um Fjallabak

Steingrímur segir að það sem geti ógnað fyrirtækinu í náttúrunni sé margþætt. Í fyrsta lagi séu það eldgos. „Eyjafjallajökulsgosið fór með ákveðinn hluta tímabundið þegar það var 2010. En síðan var það líka ein besta landkynningin okkar.

Síðan eru aðrir hlutir, eins og þegar brúin yfir Múlakvísl fór. Það var mjög erfitt dæmi að bregðast við því. Þá vorum við staddir með viðskiptavini strandaglópa báðum megin árinnar. Þannig að það var heljar verkefni að leysa það. Við erum með frábært starfsfólk hjá okkur, og þar brugðust allir sem einn við í hvelli, og á innan við sólarhring vorum við búin að opna tvær útleigustöðvar, aðra á Kirkjubæjarklaustri og hina uppi í Hrauneyjum, og keyrðum fólk á milli gegnum Landmannalaugar.“

Saknar náttúrupassans

„En síðan er þriðji þátturinn, sem ég ætla ekki að kalla náttúruvá heldur váfyrir náttúruna, og það er að við þurfum auðvitað að gæta þess að ganga af virðingu um landið okkar og ganga ekki á gæðin. Það er kannski það sem maður hefur ákveðnar áhyggjur af núna, það eru gæðin í vöru og þjónustu á Íslandi. Þá er ég bæði að tala um viðskiptalegs  eðlis, þjónustuna á veitingastöðum, bílaleigum, hótelum og svo framvegis, og síðan gæði náttúrunnar sjálfrar. Að við náum að byggja upp þá innviði sem þarf.

Ég var gríðarlega svekktur að okkur skyldi ekki bera gæfu til þess að ná saman um náttúrupassann þó ekki væri nema til bráðabirgða. Ég var og er mikill stuðningsmaður hans, og er algjörlega ósammála Samtökum atvinnulífsins um þeirra útfærslu. Ég held að við hefðum átt að byrja á náttúrupassanum og svo þróa hann áfram. Ef mönnum hefði litist mjög illa á hann hefði verið hægt að bakka út úr því. En það væri komið fullt af peningum í kassann ef við hefðum stokkið á hann.“

Ítarlegt viðtal við Steingrím er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .