Leiðtogar íslensku ríkisstjórnarinnar og ráðgjafar hennar við afnám fjármagnshafta hafa haft áhyggjur af mögulegum símhlerunum erlendra kröfuhafa föllnu bankanna. Greint er frá þessu í DV .

Þar kemur fram að stjórnvöld hafi leitað til sérfræðinga lögreglunnar til þess að láta kanna hvort hlerunarbúnaði hafi verið komið fyrir í farsímum eða hvort fylgst væri með samskiptum í gegnum tölvupóst. Enginn hlerunarbúnaður fannst hins vegar í úttektinni.

Hins vegar hafi stjórnvöld verið upplýst um það af sérfræðingum lögreglu að erfitt væri að fá úr því skorið hvort farsímar væru hleraðir. Tiltölulega auðvelt væri að koma upp hlerunarbúnaði án þess að nokkurn tímann væri hægt að komast að því. Því hafi verið gripið til ýmissa ráðstafana, og til dæmis séu viðkvæm og mikilvæg mál ekki rædd í farsíma auk þess sem símar séu ekki hafðir á fundum þar sem fjallað er um slík mál.