Bresk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau myndu ríkistryggja skuldabréf sem Northern Rock mun gefa út í því augnamiði að greiða til baka um 25 milljarða punda neyðarlán sem bankinn hefur fengið að láni frá Englandsbanka. Gengi bréfa í Northern Rock hækkuðu um allt að 55% í kauphöllinni í London í gærmorgun vegna væntinga um aukinn áhuga fjárfesta. Í tilkynningu sem breska fjármálaráðuneytið sendi til kauphallarinnar í London kemur fram að hægt verði að gera tilboð í Northern Rock fyrir 4. febrúar.

Í frétt Financial Times segir að samkvæmt áformum breskra yfirvalda muni Northern Rock setja upp sérstakt fjárfestingarfélag (SPV) og selja inn í það margvíslegar eignir -- meðal annars fasteigna- og neyslulán. SPV mun fjármagna kaupin á eignunum með því að gefa út skuldabréf, sem í kjölfarið verða seld á fjármagnsmörkuðum.

Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur unnið að þessari lausn fyrir Northern Rock og bresk stjórnvöld til að hægt verði að selja bankann til einkaaðila. Fjármálasérfræðingar segja að með þessum hætti muni hugsanlegum kaupendum -- þar á meðal Virgin Group og fjárfestingarfélaginu Olivant -- reynast auðveldara að yfirtaka bankann þar sem ekki þarf lengur að greiða Englandsbanka 25 milljarða punda lán Northern Rock til baka.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að Goldman Sachs muni líklega hafa samband við vogunarsjóðinn Cerberus og bandaríska fjárfestingarfélagið JC Flowers, sem höfðu áður sýnt áhuga á Northern Rock, til að athuga hvort vilji sé fyrir hendi til að leggja fram tilboð -- nú þegar aðstæður bankans hafa gjörbreyst.

Breska fjármálaráðuneytið varaði hins vegar við því að ef ekki næðist samkomulag við einkaaðila um yfirtöku á Northern Rock samkvæmt hinum nýju skilmálum, væri ljóst að bankinn yrði mjög líklega þjóðnýttur.