Stjórnvöld munu að mestum líkindum ekki samþykkja tilboð slitabúa föllnu bankana um að þau greiði 334 milljarða króna í stöðugleikaframlag í ríkissjóð. Bloomberg greinir frá.

Kröfuhafar föllnu bankanna, Kaupþing, Glitnis og Gamla Landsbankans, hafa samþykkt að greiða samtals 334 milljarða í stöðuleikaframlag til ríkissjóðs. Tilboðið er hins vegar ófullnægandi samkvæmt heimildamönnum Bloomberg, sem miði við um 475 milljarða í útreikningum sínum.

Heimildarmennirnir segja þó að mögulegt sé þó að stjórnvöld samþykki lægri tölu ef önnur skilyrði eru uppfyllt, án þess þó að skýra nánar hvaða skilyrði það séu. Ef samningar nást ekki fyrir áramót þurfa slitabú föllnu bankanna að greiða 39% stöðugleikaskatt í ríkissjóð.

Stöðugleikaframlagið er liður í afnámi fjármagnshafta á Íslandi og á meðal annars að gæta þess að efnahagslegum stöðugleika verði ekki ógnað við afnám haftanna.