Þorgerður K. Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, segir ljóst að skattatillögur Alþýðusambands Íslands vegna komandi kjaraviðræðna feli í sér mikil jaðaráhrif; sérstaklega fyrir lágteku- og millitekjufólk. "Við gátum ekki fallist á það. Við viljum frekar hafa skattkerfið einfalt og gegnsætt," segir í hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Forystumenn ASÍ hafa lýst því yfir að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá niðurstöðu stjórnvalda. Þorgerður vísar á bug fullyrðingum ASÍ um að stjórnvöld vilji þar með ekki styrkja lágtekjufólk. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi, þvert á móti fram, að stefnt sé að lækkun skatta, hækkun persónuafsláttar, hækkun barnabóta og einföldun almannatrygginga, með það að markmiði að tryggja hag látekju- og millitekjufólks.

Því markmiði verði hins vegar ekki náð eins og ASÍ krefjist, segir Þorgerður.