Félag kvenna í atvinnulífinu hafa undirritað samstarfsamning við Velferðarráðuneytið um að þróa svokallaða Kynjavog í samstarfi við stjórnvöld og hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi, en meginmarkmið verkefnisins er að:

  • Samræma og safna saman tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja.
  • Standa fyrir viðburðum og fræðslu um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum.
  • Veita fyrirtækjum viðurkenningu árlega, sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Samstarfssamningurinn er til eins árs og felur í sér fimm milljóna króna fjárstuðning til verkefnisins með möguleika á framlengingu segir á heimasíðu ráðuneytisins.. Undirbúningur að gerð samningsins hófst snemma síðastliðið sumar en til grundvallar liggur 5 ára aðgerðaáætlun stjórnar FKA, sem ætlunin er að móta enn betur með aðkomu fleirri aðila. Aðild að FKA eiga nú ríflega eitt þúsund leiðtogakonur í öllum geirum atvinnulífsins.

Þorsteinn Víglundsson sagðist við undirritun samningsins binda vonir við að með Jafnvægisvoginni verði hægt að draga betur fram en áður hvernig staða kynjanna er í helstu stjórnunarstöðum atvinnulífsins og verða hvati til að gera betur, því enn sé pottur brotinn í þessum efnum.

Rakel Sveinsdóttir , formaður FKA, segir að fyrir atvinnulíf og hið opinbera skipti miklu máli að nýta mannauð karla og kvenna til fulls og að þessu muni Jafnvægisvogin stuðla á margvíslegan hátt

„Við stöndum framarlega á heimsvísu hvað atvinnuþátttöku kvenna varðar, en höfum ekki séð aukningu í hlutdeild kvenna í efra lagi fyrirtækja síðastliðin ár,“ segir Rakel.

„Þess vegna teljum við mikilvægt að skoða einnig til hlítar, hverju kynjakvótalögin hafa skilað og hvaða lærdóm atvinnulífið hefur dregið af þeim. Með samstarfssamningnum er verkefninu nú formlega ýtt úr vör, en næstu skref felast í að stofna framkvæmdaráð Jafnvægisvogarinnar, þar sem FKA mun kalla að borði ýmsa aðra hagsmunaaðila úr atvinnulífinu.”