Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert styrktarsamning við Kvikmyndaskóla Íslands og hafa forsvarsmenn skólans tilkynnt ráðuneytinu að þegar í stað verði hafist handa við að undirbúa skólahald þannig að megi hefjast sem fyrst.

Samningurinn gildir til 31. júlí 2012 með möguleika á framlengingu til 31. desember 2012. Hann gerir ráð fyrir að rekstur skólans verði styrktur með allt að 46,2 milljóna framlagi úr ríkissjóði til ársloka 2011 og með allt að 56,4 milljóna króna framlagi árið 2012. Samningurinn er með fyrirvara um að fjárhagsleg endurskipulagning á rekstri skólans gangi eftir þannig að hann uppfylli skilyrði fyrir viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi fyrir 15 nóvember nk.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnir um samninginn í dag. Samningurinn kveður einnig á um að eigi síðar en 15. október nk gefi fulltrúar nemenda, fulltrúar kennara og stjórn skólans út sameiginlega yfirlýisngu um að sátt ríki á milli aðila um starf og stjórnun skólans skólaárið 2011 til 2012.

Þá hefur ráðuneytið hafið vinnu við stefnumótun í kvikmyndanámi. Í þeirri vinnu verður haft samráð við fagfólk í kvikmyndagerð og menntamálum auk hagsmunaaðila. Áætlað er að niðurstaða liggi fyrir í janúar á næsta ári.