Íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir FATCA samning við bandarísk stjórnvöld. FATCA stendur fyrir Foreign Accounts Tax Compliance Act. Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Samkvæmt FATCA lögunum, sem voru sett á í Bandaríkjunum árið 2010, ber öllum erlendum fjármálastofnunum að senda upplýsingar um tekjur og eignir bandarískra skattgreiðenda til skattayfirvalda þar í landi árlega. Ef fjármálastofnun vill ekki veita upplýsingarnar er lagður 30 prósenta afdráttarskattur á allar fjármagnstekjur sem stofnunin og viðskiptavinir hennar fá frá Bandaríkjunum.

Með samningnum milli stjórnvalda verður auðveldara fyrir íslenskar fjármálastofnanir að uppfylla kröfur samkvæmt þessum reglum. Ríkisskattstjóri mun hafa milligöngu um skipti á upplýsingum vegna þessa.

Ísland var í hópi tíu ríkja og sjálfstjórnarsvæða sem árituðu samning nú um mánaðamótin. Meðal annarra ríkja voru Kambódía, Grikkland og Túnis. Mikill fjöldi ríkja hefur þegar áritað samning af þessu tagi.