*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 20. júní 2020 13:09

Stjórnvöld staðið sína plikt

Hagfræðingur Viðskiptaráðs, telur að heilt yfir hafi aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna COVID-19 heppnast vel.

Sveinn Ólafur Melsted
Konráð S. Guðjónsson segir að hlutabótaleiðin hafi gagnast fyrirtækjum og launþegum vel en aftur á móti hefði framsetning hlutabótaleiðarinnar mátt vera skýrari.
Eyþór Árnason

Miðað við aðstæður og hvað það virðist hafa gengið vel að koma hjólum innlenda hagkerfisins aftur af stað, þá tel ég að stjórnvöld hafi heilt yfir gert vel," segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, er blaðamaður biður um hans álit á aðgerðum stjórnvalda í efnahagsmálum í kjölfar COVID-19 faraldursins. „Það gerðist allt mjög hratt og allir, þar með talið stjórnvöld, voru að glíma við áður óþekktar aðstæður, enda hefur þjóðin ekki áður þurft að glíma við það að hagkerfið stöðvist vegna heimsfaraldurs sem enginn veit hvernig mun þróast."

Konráð segir að enn sem komið er sé fullsnemmt að segja til um hvaða aðgerðir stjórnvalda hafi skipt mestu máli. „Ég hef þó grun um að vaxtalækkanir Seðlabankans, auk væntingaáhrifanna af því að ríkið og Seðlabankinn gripu til aðgerða, hafi skipt miklu máli í þessum neyðaraðgerðum. Ég tel að aðgerðir Seðlabankans hafi heilt yfir verið vel heppnaðar en sumar hefðu kannski mátt koma fram fyrr - t.d. hefði mátt lækka stýrivexti af meiri krafti aðeins fyrr."

Konráð segir það einnig blasa við að hlutabótaleiðin hafi gagnast mjög vel hvað það varðar að halda fólki í vinnu og á sama tíma halda fyrirtækjum landsins lifandi.

„Ég vil varla hugsa þá hugsun til enda ef slíkt úrræði hefði ekki komið til skjalanna, enda hefðu fleiri fyrirtæki lent í verulegum vanda og atvinnuleysið orðið enn meira. Nú þegar slakað hefur verið á samkomuhömlum og lífið farið að snúa aftur í sinn vanagang, virðist vera kominn aftur merkilega mikill gangur í atvinnulífið miðað við aðstæður. En það má þó ekki gleyma því að við erum í kreppu - ástandið er slæmt en ekki eins slæmt og margir óttuðust. Þar grunar mig að hlutabótaleiðin, auk fleiri aðgerða, hafi hjálpað verulega en þetta á allt saman eftir að koma betur í ljós."

Framsetning hlutabóta óskýr

Konráð bendir þó á að framsetning hlutabótaleiðarinnar hefði mátt vera skýrari.

„Þó að hlutabótaleiðin hafi verið góð þá var heldur misheppnað af hálfu stjórnvalda að hafa í upphafi ekki sett fram nein skilyrði um það hverjir gætu nýtt sér úrræðið og hverjir ekki. Fyrirtæki voru hvött til þess að nýta hlutabótaleiðina til að standa vörð um ráðningarsambandið, en svo nokkrum dögum síðar töluðu stjórnvöld með þeim hætti að það hafi verið sett fram einhver skilyrði og sögðu að viss fyrirtæki hefðu misnotað þetta úrræði. Þessi misvísandi skilaboð varðandi hlutabótaleiðina, á tímum þar sem nær allir voru að berjast í bökkum á miklum óvissutímum, voru verulega óheppileg.

Ef það má draga lærdóm af þessum aðgerðum þá tel ég þetta vera það helsta sem bæði ríkið og fyrirtækin geta lært af. Þegar það eru svona neyðarúrræði í boði þá verða fyrirtækin að hugsa sig tvisvar um hvort þau þurfi í raun og veru á því að halda. Að sama skapi þurfa stjórnvöld að gæta þess að öll slík úrræði séu vel skilgreind og sett fram á skýran máta."

Nánar er rætt við Konráð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér