Úlfar Steindórsson, fráfarandi stjórnarformaður Icelandair, lítur yfir farinn veg og ræðir um framtíðarhorfur í ferðaþjónustunni í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, fimmtudag.

Farsóttin hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna, eins og alkunna er, og Úlfar telur fyrirtækin misvel í stakk búin til að rísa upp aftur eftir áfallið.

„Þá á eftir að skýrast á næstu 1-2 árum hvaða burði fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa til að fara af stað aftur af þeim krafti sem til þarf. Lán hafa verið fryst og greiðslum frestað en það er fyrirséð að tekjuinnstreymið sem verður á þessu ári mun ekki duga til hjá nærri því öllum til að koma rekstrinum í gott stand. Það á eftir að koma í ljós hvernig bankar og aðrir munu bregðast við en þetta snýst svolítið um það hvaða trú fólk hefur á framtíðina. Ég er alveg sannfærður um að hér á landi eru mikil tækifæri fram undan. Við megum ekki vera of upptekin af því hvort við fáum 100 þúsund ferðamönnum fleiri eða færri, þetta snýst um að við séum að gera þetta vel. Fólk sem kemur til Íslands vill fá góða upplifun og góða þjónustu. Það vill fá það sem það er að borga fyrir og við þurfum að standa undir þeim væntingum. Endalaus vöxtur getur ekki verið markmið, þetta snýst um að hámarka þær takmörkuðu auðlindir sem við eigum. Ég er þó sannfærður um að næstu ár verði mjög sterk og að það verði vöxtur, við munum sjá fleiri vilja heimsækja þennan skrítna stað sem Ísland er. Það segi ég auðvitað með þeim fyrirvara að fólk fylgi því sem hefur verið lagt upp með í kjölfar faraldursins," segir hann.

Gengur ekki upp

Úlfari þykir það ómögulegt að herða takmarkanir á landamærum núna þegar stærstur hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur.

„Fyrirtæki á borð við Icelandair, Bláa Lónið, bílaleigur, hótel og þess háttar hafa öll verið að ráða inn helling af starfsfólki, byggt á ákvörðun sem stjórnvöld voru búin að taka og tilkynna. Það er ekki gerandi að ætla svo skyndilega að breyta því eftir ekki nema hálfan mánuð, það bara gengur ekki upp. Við skulum vona að skynsemin verði ofan á í þessu að lokum."

Hann segir eðlilegt að embættismenn á borð við sóttvarnalækni komi með tillögur byggt á því þrönga sjónarhorni sem útbreiðsla smita sé, en stjórnvöld verði að taka ákvörðun út frá heildarhagsmunum.

„Þetta snýst auðvitað um að stjórnvöld, þeir fulltrúar okkar sem kjörnir eru til að stýra landinu, taki ákvarðanirnar. Það er ekki hægt að gagnrýna embættismenn fyrir tillögur sem þeir leggja til í samræmi við hlutverk sitt en stjórnvöld verða að byggja ákvarðanir sínar á stóru myndinni. Ef kjörin stjórnvöld ætla ekki að stýra landinu, þá veit ég ekki til hvers við ætlum að hafa kosningar í haust. Við gætum þá allt eins beðið embættismenn um að taka við hlutverki þeirra. Ef stjórnmálamenn þora ekki að taka ákvörðun sem þeir vita að er rétt út frá heildarhagsmunum, vegna þess að einhverjir verða brjálaðir, þá eiga þeir að gera eitthvað annað en að vera í pólitík."

Nánar er rætt við Úlfar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .