Á sama tíma og áhyggjur meðal ráðamanna aðildarríkja Evrópusambandsins af því hversu háð þau eru Rússum um innflutning á orku fara vaxandi hafa stjórnvöld í Ungverjalandi tekið upp samstarf við orkurisann Gazprom um að framlenging á Blue Stream-gasleiðslunni nái til landsins. Með þessari ákvörðun eru stjórnvöld í Búdapest að styrkja stöðu Rússa á evrópskum orkumarkaði enn frekar en leiðslan mun liggja meðfram fyrirhugaðri leiðslu sem er ætlað að draga úr þörf Evrópuríkja eftir rússneskri orku.

Blue Stream-gasleiðslan flytur orku frá Rússlandi til Tyrklands. Fyrirhugað er að framlengja hana þannig að hún nái alla leið til Ungverjalands gegnum Búlgaríu og Rúmeníu. Þetta er nánast sama leið og áætlað er að Nabucco-leiðslan fari um, en hún mun leiða gas frá Kaspíahafi til Austurríkis gegnum Tyrkland. Hún er meðal annars lögð til þess að tryggja að Evrópumenn verði ekki enn háðari Rússum um orkuöflun. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að lagningu beggja leiðsla ljúki á sama tíma og kostnaður við framkvæmdir verði svipaður. Auk samstarfsins við Gazprom eiga Ungverjar aðkomu að fyrirtækinu sem leggur Nabucco-leiðsluna.

Ríkisstjórn Ungverjalands, sem er leidd af sósíalistum, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir samstarfið við Gazprom. Er forsætisráðherra landsins, Ferenc Gyursany, meðal annars sagður vera í nánu sambandi við Vladímír Pútín Rússlandsforseta, og að hann sé að auki mikill stuðningsmaður þeirrar stefnu Gazprom að auka áhrif sín á orkumörkuðum Mið- og Suðaustur- Evrópu. Margir telja slíka þróun varhugaverða en rússnesk stjórnvöld hafa meðal annars verið gagnrýnd fyrir að notfæra sér mikilvægi rússneskrar orku til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum. Ungverjar eru eins og mörg önnur ríki afar háðir rússnesku jarðgasi. Stjórnarandstaðan sakar meðal annars stjórnvöld um að ætla að gera landsmenn enn háðari rússneskri orku með samstarfinu við Gazprom.

Stjórnvöld vísa þessari gagnrýni á bug. Talsmenn stjórnvalda segja að með samstarfi við Gazprom um lagningu Blue Stream leiðslunnar styrki það stöðu Ungverjalands sem einhverskonar dreifingarmiðstöð orku í Evrópu. Auk þess bendir Gyurcsany á að miklar tafir hafa orðið á framkvæmdinni við lagningu Nabucco-leiðslunnar. Í viðtali við dagblaðið International Herald Tribune segir hann að fyrirsjáanlegt sé að frekari tafir verði á lagningu hennar og áform Rússanna vera mun raunsærri en aðstandenda Nabucco-leiðslunar.


ESB ákvað að flýta lagningu Nabucco í kjölfar þess að deila milli Rússa og Úkraínumanna um verð á gasi árið 2006 leiddi til orkuskorts í nokkrum Evrópuríkjum. Framkvæmdir hafa tafist ekki síst vegna óvissu um það hvort að hægt verði að flytja gas frá Íran gegnum leiðsluna - en allt er á huldu um slíkt sökum deilunnar um kjarnorkuáform klerkastjórnarinnar í Teheran. Búist er við að lagningu hennar muni ljúka í fyrsta lagi árið 2011 og að kostnaður við framkvæmdir verði um fimm milljarðar evra. Áætlað er að leiðslan geti flutt 30 milljarða rúmmetra af jarðgasi á ári frá löndunum kringum Kaspíahaf til Evrópu. Í dag er rúmlega fjórðungur af allri eftirspurn aðildarríkja ESB eftir jarðgasi mætt með innflutningi frá Rússlandi.