Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, telur nýsköpunarumhverfið á Íslandi vera gott fyrir fyrirtæki á fyrstu stigunum í nýsköpunarferlinu. Þegar lengra er komið þurfi þau þó að hleypa heimdraganum til að halda áfram að vaxa.

Hvernig metur þú nýsköpunarumhverfið á Íslandi?

„Að taka fyrstu skrefin í nýsköpun er að mörgu leyti mjög gott á Íslandi. Það er aðgangur að tæknimenntuðu fólki. Þokkalegur aðgangur er að fjármagni á fyrstu stigunum. Rannís hefur skipt þar sköpum fyrir mörg fyrirtæki og svo eru fleiri fjárfestar og sjóðir til staðar. Þekkingin er stöðugt að aukast og tilfinningalegur stuðningur við nýsköpun er mikill. Það hafa átt sér stað miklar framfarir í umhverfinu á Íslandi frá því að við vorum að byrja með Meniga.

Þegar lengra er komið í líftíma fyrirtækja þurfa flest íslensk fyrirtæki í nýsköpun að huga að samhliða uppbyggingu erlendis ef þau ætla sér að vaxa hratt. Ísland er of lítill markaður og án sérhæfðra fjárfesta með mikla tækniþekkingu. Það er gott að taka fyrstu skrefin á Íslandi en svo þarf að hleypa heimdraganum.

Það er ekki raunhæft að byggja upp allt á Íslandi. Ísland er rosalega lítill markaður. Ef þú hefur alþjóðlegan metnað þá þarft þú að hugsa alþjóðlega frá fyrsta degi. Á Íslandi er að finna heimsklassa hugbúnaðarfólk, enda hefur Ísland nýst okkur vel í að byggja upp hugbúnaðar- og tæknihlið Meniga. Ísland hefur líka reynst vel sem prufumarkaður. En það er erfitt að finna alþjóðlegt sölu- og markaðsfólk á tæknisviði á Íslandi. Það er einnig ópraktískt að vera með sölustarfsemina á Íslandi, langt frá erlendum mörkuðum. Þess vegna fórum við til Stokkhólms og London. Meirihluti okkar fjárfesta eru þó íslenskir og flestir okkar starfsmenn eru á Íslandi.

Krónan getur haft lamandi áhrif á nýsköpunarumhverfið. Veruleg styrking krónunnar skerðir samkeppnisstöðuna. Það er núna tvöfalt eða þrefalt dýrara að ráða hugbúnaðarmanneskju á Íslandi heldur en annars staðar. Það er vel hægt að finna vel menntað tæknifólk utan Íslands, þannig að styrking krónunnar kemur smám saman í veg fyrir að tæknistörfin skapist hér á landi. Það er mjög slæmt en það er svo sem engin töfralausn til á því.

Þó að umhverfið sé um margt hagfellt má bæta ýmislegt. Það vantar meiri metnað í að laða hingað alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Það væri hægt að fresta skattlagningu í ákveðinn tíma þar til fyrirtæki ná ákveðinni stærð. Reyndar voru gerðar ágætar lagabreytingar á síðasta kjörtímabili hvað það varðar. Svo mætti til dæmis leyfa fyrirtækjum að borga fólki hlutabréf eða valrétti í staðinn fyrir laun þegar fyrirtækin eru á frumstigi. En í staðinn er tilfinningin sú að skattkerfið sé hannað af ótta við svik og kennitöluflakk, óháð því hversu illa það kemur sér fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Það er stundum verið að kasta barninu með baðvatninu. Svo eru niðurgreiðslur til rannsóknar- og þróunarstarfs með mjög lágu þaki. Stjórnvöld þurfa bara að standa sig betur í þessu og hugsa stærra.“

Nánar er rætt við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .