Hlutabréf féllu í kauphöllinni í Sjanghæ í gær í kjölfar þess að kínversk stjórnvöld komu þeim skilaboðun áleiðis í gegnum ríkisfjölmiðla að fjárfestar og fjármálafyrirtæki ættu að vera meðvitaðri og upplýstari í ákvörðunum sínum og íhuga þær hættur sem kunna að felast í spákaupmennsku.

Teikn eru á lofti um að stjórnvöld í Alþýðulýðveldinu hafi í auknum mæli áhyggjur á því að meiriháttar leiðrétting á hlutabréfamarkaðnum kunni að vera yfirvofandi og að hún verði til þess að sparnaður fjölda íbúa þurrkist út. Linnulausar hækkanir á hlutabréfamörkuðum þar eystra hafa orðið til þess að fjöldi fjárfesta hefur keypt hlutabréf í þeirri trú að markaðir haldi áfram að hækka. Hlutabréfavísitalan í Sjanghæ hefur hækkað um meira en 300 prósent á tæpum tuttugu og fjórum mánuðum og margir sérfræðingar telja að slík hækkun fáist vart staðist. Einn þeirra er fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Geeenspan, en á miðvikudag varaði hann við því að gengi kínverskra hlutabréfa kynni að leiðréttast með "dramatískum hætti."

Þrátt fyrir að ummæli manna á borð við Greenspan hafi mikla vigt eru ekki allir á þeirri skoðun að þau komi til með hafa mikil áhrif á kínverska markaðinn. Í Financial Times er haft eftir Steven Sun, sérfræðingi í Asíumörkuðum hjá HSBC, að venjulegir fjárfestar í Kína hafi ekki hugmynd um hver Greenspan sé. Hinsvegar ætla margir að einhverskonar stjórnvaldsaðgerðir verði til þess að markaðurinn leiðréttist.

Í samanburði við verð á öðrum hlutabréfamörkuðum í Austur-Asíu er verðið á kínverskum hlutabréfum það hæsta. Fram kemur í frétt Financial Times að verð hlutabréfa sem skráð eru í Kína sé áttatíu prósent hærra en verð þeirra kínversku hlutabréfa sem eru skráð í Hong Kong. Sérfræðingar telja líkur á að markaðurinn leiðrétti sig fljótlega og spáir HSBC tíu til fimmtán prósenta lækkun og að vísitalan í Sjanghæ verði komin niður 3500 stig í lok árs. Um þessar mundir er hún í 4300 stigum.