*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 25. mars 2019 16:04

Stjórnvöld við öllu búin með Wow air

Fjármálaráðherra segir starfshóp til undirbúnings viðbrögðum við röskun á flugi hafa verið að störfum mánuðum saman.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra segir stjórnvöld vera með viðbragðsáætlanir tilbúnar ef allt fari á versta veg með Wow air. Eins og fjallað hefur verið um ítarlega í Viðskiptablaðinu í dag og í gær, hefur félagið þurft að endursemja við kröfuhafa sína í kjölfar þess að samningaviðræður þess, fyrst við Indigo Partners, og síðan Icelandairs runnu út í sandinn síðustu daga.

Þetta kom fram í svari Bjarna í fyrirspurnartíma á Alþingi við spurningu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins sem var „Er ríkisstjórnin með plan?.“ Tók Bjarni fram að það væri ekki hluti af áætlunum stjórnvalda að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og fluggeirann.

„En hins vegar þurfa stjórnvöld auðvitað að vera viðbúin, ef einhver meiri háttar röskun verður, að huga að orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda,“ sagði Bjarni sem sagði sérstakan starfshóp hafa verið að störfum í marga mánuði til að undirbúa viðbragðsáætlun eftir ólíkum sviðsmyndum.

„Þær aðstæður hafa ekki enn þá skapast, sem betur fer. En við erum viðbúin því ef það gerist.“