Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu er ánægður með þau skref sem hafa verið tekin til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar á kjörtímabilinu.

Íslensk verslun í alþjóðlegri samkeppni

„Stjórnvöld fá stórt prik fyrir það enda er íslensk verslun í gífurlegri alþjóðlegri samkeppni. Bæði það að Íslendingar fara mikið út til að versla, og svo má ekki gleyma því að verslun yfir netið, mun bara aukast.

Í Skandinavíu er hún komin í 10-30% og það hlýtur að enda með því að það verði sama prósenta hér á landi. Það hefur komið okkur svolítið á óvart hvað þetta hefur gengið hægar hér heldur en annars staðar,“ segir Andrés.

Landbúnaðarmálin gífurleg vonbrigði

„Hins vegar er ekki hjá því komið að nefna landbúnaðarmálin en það var okkur og mörgum öðrum hagsmunaaðilum gífurleg vonbrigði, hvernig þau mál enduðu.

Við töldum að stjórnvöld væru beinlínis í dauðafæri til að stíga skref til þess að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Það er gífurleg tollvernd á hvíta kjötinu, þegar menn kaupa pakka af kjúklingabringum á þúsund kall, þá borgarðu 500 kall fyrir tollverndina.

Þegar þú kaupir svínakótilettur út í búð, þá borgarðu 350 kall á þúsundkall fyrir tollverndina. Ef þú lítur bara á ársreikninga þeirra fyrirtækja sem eru í þessum bransa og framleiða svínakjöt og kjúklingakjöt, sem er að okkar mati ekki landbúnaður heldur verksmiðjuframleiðsla, þá hika ég ekkert við að segja það að þessi grein býr við mjög óeðlilegar samkeppnisaðstæður.“

Festir í sessi óbreytt fyrirkomulag

Andrés segir búvörusamninginn festa í sessi óbreytt fyrirkomulag til næstu tíu ára.

„Það er bókstaflega óskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld stigu ekki það skref að efla samkeppni í þessari atvinnugrein. Þetta er hugsanlega stærsta skrefið sem þau gætu stigið núna, til þess að virkilega auka kaupmátt almennings ennþá frekar,“ segir Andrés og gefur lítið fyrir endurskoðunarákvæðin í samningnum.

„Það þarf alltaf samkomulag beggja aðila til þess að breytingar verði gerðar, ef samtök bænda verða ekki ánægð þá geta bændur alltaf hafnað því í atkvæðagreiðslu, á þessum endurskoðunartíma til 2019 og þá verður samningurinn áfram í gildi og stendur til ársloka 2026.“

Hafa tröllatrú á íslenskum landbúnaði

Andrés segir að samtökin hafi tröllatrú á íslenskum landbúnaði og telja hann geta blómstrað.

„Við viljum að menn nái einhvers konar samkomulagi um hinn hefðbundna gamla íslenska landbúnað, mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, af því langflestir Íslendingar vilja hafa hann sem öflugastan,“ segir Andrés en segir framleiðslu á hvítu kjöti fyrst og fremst búa við óeðlilegt rekstrarumhverfi.

„Tollverndin á garðyrkjunni var að stærstum hluta afnumin árið 2002, en sú grein bara blómstrar í dag. Greinin framleiðir frábæra vöru, vöruþróunin er bara til fyrirmyndar, það er engin ástæða til að ætla annað en að það sama eigi við um aðrar greinar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .