Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Byggiðnar, segir stjórnvöld verða að stýra stórframkvæmdum þannig að þau ýki ekki hagsveiflur á borð við þá uppsveiflu sem nú virðist vera í uppsiglingu. Þetta kom fram í viðtali við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Mikill uppgangur er nú í byggingariðnaði og mikil eftirspurn eftir þjónustu iðnaðarmanna. „Fyrir þjóðarbúið er þetta áhyggjuefni, þessi sveifla er óeðlileg. Sérstaklega fyrir okkur í byggingariðnaðnum, við viljum reyna að byggja upp eðlilegan markað,“ segir Finnbjörn. Þeir sem starfi í byggingariðnaði vilji búa við stöðugleika.

Finnbjörn segir stjórnvöld verða að gefa tóninn með ákvörðunum sínum um tímasetningu stórframkvæmda. „Ég vil að menn setjist niður og velti fyrir sér hvað sé hagkvæmt að koma með inn á markaðinn hverju sinni,“ segir hann.