EFTA-dómstóllinn staðfesti í morgun með dómi sínum heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða í tilefni af samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma. Aðdragandi málsins er sá að WOW air kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir fyrirkomulagi við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli.

Í dómi EFTA-dómstólsins segir að hvers konar íhlutun opinberra yfirvalda yrði að vera vel rökstudd með vísan í reglugerð. Einnig kemur fram að svonefndur hefðarréttur á afgreiðslutímum komi ekki í veg fyrir íhlutun samkeppnisyfirvalda á afgreiðslutímum, en flugfélög sem hafa haft yfir að ráða mikilvægustu afgreiðslutímunum hafa gert það á grundvelli hefðarréttar.

Í málinu var því haldið fram að flugfélög ættu rétt á því að halda afgreiðslutímum sem þau fengju á grundvelli hefðarréttar, þ.e. ef þau sýndu fram á 80% nýtingu á úthlutuðum afgreiðslutímum. Af dómi EFTA-dómstólsins leiðir hins vegar að samkeppnisyfirvöld geta engu að síður gripið til aðgerða í slíkum tilvikum. Hvers kyns íhlutun verði hins vegar að grundvallast á háttsemi sem valdi samkeppnishömlum, misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða reglna um samruna fyrirtækja.

Álitið í heild sinni má lesa hér .