Stoðtækjafyrirtækið Stoð hefur fest kaup á danska fyrirtækinu Vestegnens Bandageri sem sérhæfir sig í gerð stoðtækja af ýmsu tagi. Elías Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Stoð, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að um sé að ræða lítið og rótgróið fyrirtæki í Glostrup í Danmörku.

"Þar vinna fimm starfsmenn sem allir munu halda áfram að starfa hjá okkur," segir Elías. Kaupverðið er trúnaðarmál en Elías segir að kaupin komi til með að auka veltu Stoðar um fjórðung á þessu ári.

"Við gerum okkur miklar vonir með Vestegnens Bandageri og eigum til að mynda von á að umsvifin aukist töluvert strax á þessu ári, þegar starfsemin verður á breiðara sviði en verið hefur. Þetta munum við gera með því að bjóða Dönum upp á nýja og öðruvísi þjónustu. Sérstaða okkar er þjónusta við fjölfatlaða einstaklinga, sérstaklega börn. Við teljum okkur eiga mikla möguleika í Danmörku enda eru kaupin hugsuð sem skref í langtímaáætlun um vöxt og aukin umsvif Stoðar," sagði Elías.

Að hans sögn er vöxturinn í stoðtækjageiranum takmarkaður hér á landi og því nauðsynlegt að sækja á nýja markaði erlendis.

"Hjá Stoð höfum við gott verkstæði, stoðtækjafræðinga og úrvals starfsfólk, og því viljum við halda áfram að gera það sem við teljum okkur gera vel. Við höfum fulla trú á að okkar þekking eigi upp á pallborðið enda höfum við reynslu af því að starfa erlendis í sérverkefnum með góðum árangri. Núna ákváðum við að láta á það reyna að stíga næsta skref með því að kaupa fyrirtæki," sagði Elías.