ótt Guðmundur Rúnar  Árnason hafi setið í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í síðustu sveitarstjórnarkosningum segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið það aldrei hafa staðið til af sinni hálfu að verða bæjarstjóri.

„Lúðvík Geirsson, félagi og samstarfsmaður til áratuga og farsæll og vinsæll bæjarstjóri í Hafnarfirði frá 2002, var í baráttusætinu. Hann náði ekki kjöri og við misstum meirihlutann. Í kjölfarið mynduðum við meirihluta með bæjarfulltrúa Vinstri grænna, Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur.“

Guðmundur segir samstarfið við VG hafa gengið mjög vel og samvinnan milli flokkanna sé mjög góð. „Samstarfið við oddvita minnihlutans hefur einnig gengið mjög vel, án þess að ég ætli að halda því fram að við séum sammála um alla hluti. Milli okkar hefur ríkt traust og trúnaður, sem er nauðsynlegur þegar um er að ræða jafn mikilvæg mál og stjórn þriðja stærsta sveitarfélags landsins.“

Eins og flestum er kannski minnisstætt var Lúðvík Geirsson ráðinn bæjarstjóri í kjölfar kosninganna en hann vék í kjölfar talsverðra mótmæla. „Það hefur komið í minn hlut að stýra skútunni á þessum erfiðu tímum,“ segir Guðmundur og bætir við: „Ég geri ráð fyrir því að það hafi oft verið skemmtilegra, en ég bý að því að vinna með samhentum hópi samstarfsfólks í meirihlutanum, að ógleymdu starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, sem hefur tekið ágjöfinni með miklum skilningi og æðruleysi. Það leggjast allir á árarnar og þannig mun okkur takast að snúa við dæminu á tiltölulega skömmum tíma.“

Guðmundur Rúnar Árnason er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir flipanum Tölublöð.