Fjárfestingafélagið Stoðir margfaldaði hlut sinn í Arion banka í liðinni viku þegar eignarhaldsfélagið Kaupþing seldi tíu prósenta hlut í bankanum. Hlutur Stoða nemur nú um 4,5 prósentum og er markaðsvirði hans, miðað við gengi bréfa í bankanum, um sex milljarðar króna.

Frá þessu er sagt í Markaðnum . Eftir kaupin er Stoðir stærsti íslenski fjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka. Fyrir sölu Kaupþings áttu stoðir rúmlega 0,6 prósent hlut. Umsvif einkafjárfesta í Arion jukust í kjölfar sölu Kaupþings en þeir eiga nú um tíu prósent hluta í bankanum.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var umframeftirspurn eftir bréfum í bankanum og var algengt að lífeyrissjóðir, svo og íslenskir verðbréfasjóðir, fengju nokkuð undir helmingi af því sem þeir höfðu óskað eftir að kaupa.

Meirihluti hlutafjár í Stoðum er í eigu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einars Arnar Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Magnúsar Ármann og vátryggingafélagsins TM.