Fjárfestingarfélagið Stoðir hyggst greiða fyrir um 400 kílóa sendingu af hlífðarfatnaði frá 66°Norður, fyrir starfsmenn heilsugæslunnar að því er Vísir greinir frá upp úr viðtali við Helga Rúnar Óskarsson forstjóra útivistarkeðjunnar á Sprengisandi Bylgjunnar.

Segir Helgi Rúnar að verðmæti sendingarinnar sem inniheldur ýmis konar galla, gleraugu og plastgrímur, en hún kemur til viðbótar við 4.000 andlitsgrímur sem félagið hefur þegar útvegað heilsugæslunni beint frá Kína, hlaupi á mörgum milljónum króna. Jafnframt segir forstjórinn að 66°Norður sé nú að prófa sig áfram við framleiðslu eigin andlitsgríma.

Helgi segir að til að bregðast við áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar á rekstur félagsins hafi það lokað þremur verslana sinna, það er á Bankastræti í miðbæ Reykjavíkur, á Keflavíkurflugvelli og annarri tveggja verslana félagsins á Akureyri.

Eins og Viðskiptablaðið sem kom út í morgun fjallar um eru fjölmargar útivistarverslanir í miðborg Reykjavíkur nú að glíma við auðar götur, meðan til að mynda nýtt félag um rekstur Cintamani sem lokaði verslunum sínum upp úr áramótum er einungis með netverslun.

Helgi segir hlutabótaleið stjórnvalda hafa skipt sköpum í því að komast hjá uppsögnum hjá útivistarkeðjunni, en auk þess hafi orðið nokkur aukning á netsölu og kraftar starfsfólks hafi nýst þar.