Stjórn Stoða (áður FL Group) leysti inn forgangshlutafé að andvirði 4,7 milljarða króna í janúar síðastliðnum. B-flokkur hlutafjár Stoða var lækkaður um 4,7 milljarða eftir að hlutaféð var leyst inn og hluthöfum var greitt. Eftir hlutafjárlækkunina er hlutafé félagsins um 15,9 milljarðar, þar af eru 11,9 milljarðar í A-flokki og 4 milljarðar í B-flokki.

„Þetta er liður í áætluninni sem var lagt af stað með. Eftir því sem eignir eru seldar þá er ákveðin greiðsluröð,“ segir Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða. „Það voru veðtryggð lán upp á tæpa tíu milljarða og forgangshlutabréf upp á um tíu milljarða líka sem voru undan hinum almennu hluthöfum. Við höfum síðan þá verið að greiða þetta niður. Við byrjuðum á lánunum og kláruðum að greiða þau upp núna í nóvember þegar við seldum TM hlutinn,“ segir hann.

Í dag eiga Stoðir um þriðjungshlut eftir í TM en stefnt er að skráningu félagsins á markað á fyrri hluta þessa árs. Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að bréf félagsins verða skráð á markað seinni hluta apríl eða í byrjun maí ef áætlanir ganga eftir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.