Fjárfestingafélagið Stoðir skilaði 12,6 milljarða króna hagnaði eftir skatta á fyrri helmingi ársins, samanborið við 477 milljóna tap á fyrri árshelmingi 2020. Félagið keypti eigin bréf fyrir 1,4 milljarða króna á fyrri hluta ársins. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins en Vísir sagði fyrst frá uppgjörinu.

Eignir félagsins námu 43 milljörðum í lok júní, samanborið við 31,8 milljarða í lok desember síðastliðins. Handbært fé félagsins var 3,5 milljarðar í lok júní. Eiginfjárhlutfall Stoða var 99,9% í lok tímabilsins.

Fjárfestingaeignir námu 39,2 milljörðum en þar af voru skráð hlutabréf færð til bókar á 35,4 milljarða og óskráð bréf 3,2 milljarðar. Skuldabréf voru metin á 411 milljónir og afleiður 168 milljónir. Félagið keypti alls verðbréf fyrir 1,7 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og seldi fyrir 795 milljónir.

Stoðir eru stærsti hluthafi Símans og Kviku og félagið fer einnig með stóran hlut í Arion banka og flugfélagsins Play. Stoðir keyptu nýlega hlut 6,2% hlut Helga Magnússonar, eiganda Torgs, í Bláa lóninu.

Stærsti hluthafi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 56% hlut en stærsti hluthafi S121 er Helgafell ehf. sem er í eigu Kristínar, Ara og Bjargar Fenger og fjölskyldu. Í maí síðastliðnum seldi tryggingafélagið TM, dótturfélag Kviku banka, allan 12,4% hlut sinn í Stoðum fyrir um 4,5 milljarða króna.