Fjármálaeftirlitið hefur sektað Stoðir hf. fyrir að hafa ekki tilkynnt fyrir fram um áform félagsins um að eignast virkan eignarhlut í TM og eftirlitsskyldum dótturfyrirtækjum þess. Málinu var lokið með sátt Fjármálaeftirlitsins og Stoða og félaginu jafnframt gert að greiða sekt að fjárhæð 3,7 milljónum króna til ríkissjóðs. Þetta kemur fram á vef Seðlabanka Íslands .

Í flöggunartilkynningu til kauphallarinnar í mars á síðasta var greint frá því að Stoðir hefðu eignast 11,66% hlut í TM en að atkvæðisréttur myndi takmarkast við 9,99% þar til heimild um hæfni Stoða til að fara með virkan eignarhlut fengist staðfest. Aðilar sem hyggjast kaupa virkan eignarhlut, 10% eða hærri hlut, í vátryggingarfélögum er skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um kaupin.

Í bréfi til Stoða á síðasta ári voru skyldur félagsins gagnvart Fjármálaeftirlitinu áréttaðar og félaginu tilkynnt um niðurfellingu atkvæðisréttar þess í TM. Í 62. grein laga um vátryggingarstarfsemi og 45. grein laga um fjármálafyrirtæki er tekið fram að tilkynni aðilar ekki um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhluti skuli atkvæðaréttur felldur niður.