Stoðir seldu í dag alla eignarhluti sína í Tryggingamiðstöðinni (TM) fyrir rúma 1,3 milljarða króna. Félagið átti fyrir viðskiptin 5,54% hlut í TM. Greint var frá því í gær að Stoðir ætluðu að selja allt hlutafé sitt í félaginu í hlutafjárútboði.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að lágmarksgengi í útboðinu var 31,50 krónur á hlut og þurftu tilboðsgjafar að lágmarki að bjóða í 600.000 hluti. Stoðir tóku tilboðum í 42.094.904 hluti og var heildarsöluverðmæti útboðsins 1.341.234.476 króna. Samþykkt voru tilboð á bilinu 31,50 til 32,56 krónur á hlut og var vegið meðalgengi samþykktra tilboða 31,86 krónur á hlut. Af samþykktum tilboðum þurfa einungis þeir fjárfestar sem buðu 31,50 krónur á hlut að sæta skerðingu.

Þá segir í tilkynningunni að gjalddagi og eindagi greiðslu vegna útboðsins er klukkan 16:00 þann 21. janúar 2014 og verða hlutir í Tryggingamiðstöðinni hf. afhentir kaupendum sama dag.

Gengi hlutabréfa TM stóð í 31,85 krónum á hlut í Kauphöllinni í dag.

Markaðsviðskipti Landsbankans hf. höfðu umsjón með sölu hlutanna.