Eignarhaldsfélagið Stoðir hefur selt 5,9% hlut sinn í dönsku ölgerðinni Royal Unibrew. Heildarsöluverð nemur um 5,3 milljörðum króna. Frá ársbyrjun 2010 hefur gengi bréfa Royal Unibrew hækkað um 167%.

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hækkunin sé í raun hærri ef farið er lengra aftur en til ársbyrjunar 2010. „Við endurskipulagningu Stoða á árinu 2009 var hlutabréfaverð Royal Unibrew í sögulegu lágmarki,“ segir Júlíus. Söluandvirði fer í að greiða niður lán og gengur upphæðin því til lánveitenda.

Aðspurður hvort til standi að selja fleiri eignir Stoða á næstunni bendir Júlíus á að nýlega hafi félagið tilkynnt um að kannaður yrði möguleikar á sölu TM tryggingafélags. Stefnt sé að því að selja félagið innan árs. Stoðir eiga um 99% hlut í TM. Þá á félagið 40% hlut í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. „Síðan árið 2009 höfum við haft ákveðna stefnu um hverja eign fyrir sig og markmiðið að hámarka virði hennar. Á endanum snýst þetta um sölu á réttum tíma.“ Að mati Júlíusar tókst vel til við sölu Royal Unibrew.

Um 6,8 milljarða hagnaður

Ársreikningur Stoða var samþykktur af hluthöfum á aðalfundi félagsins þann 26. apríl síðastliðinn. Hagnaður ársins 2010 nam 6.755 milljónum króna. Heildareignir í árslok námu 39.465 milljónum og skuldir félagsins voru um 9,3 milljarðar króna. Eigið fé nam um 30,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið 77%.

Júlíus segir að hækkun á verðmæti eigna skýri hagnað félagsins á síðasta ári. „Verðmæti skráðra og óskráðra eigna er að aukast og skýrir hagnaðinn," segir hann.

Á aðalfundinum voru Eiríkur Elís Þorláksson, Sigurjón Pálsson og Hermann Már Þórisson kjörnir til setu í stjórn Stoða.