*

föstudagur, 3. júlí 2020
Innlent 16. maí 2019 17:24

Stoðir stærsti hluthafi TM

Stoðir eiga nú hluti fyrir 2,2 milljarða í TM. Tveir fruminnherjar TM nýttu allt sitt hlutafé til að kaupa í Stoðum í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tveir stjórnarmenn í TM hafa nýtt alla sína hluti í félaginu til að greiða fyrir hlutabréf í S121 ehf. Viðskiptin eru liður í hlutafjáraukningu Stoða en S121 er aðaleigandi Stoða. S121 er jafnframt orðinn stærsti hluthafi TM. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í fyrsta lagi er um að ræða félagið Eini ehf. en það er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarmanns í TM. Félagið seldi í dag tæplega 19,6 milljón hluti í TM á genginu 32,687 eða fyrir rúmlega 640 milljónir alls. Í tilkynningunni kemur fram að Einir muni greiða fyrir hlutafé í S121 með öllum hlutabréfum sínum í TM.

Örvar Kærnested, sem einnig á sæti í stjórn TM, gerði slíkt hið sama en hann seldi alls 13 milljón hluti á sama gengi. Virði viðskiptanna er 425 milljón krónur. Viðskiptin voru gerð í nafni Riverside Capital ehf.

Þá hefur Helgafell ehf., selt 35 milljón hluti í TM á sama gengi. Helgafell er í eigu Ara Fenger, Bjargar Fenger og Kristínar Vermundsdóttur. Samkvæmt hluthafalista TM, sem síðast var uppfærður 6. maí, átti Helgafell 45 milljón hluti á þeim tíma.

Þá er tekið fram í tilkynningunni að eftir viðskipti dagsins eigi Stoðir alls tæplega 67,6 milljón hluti, eða 9,93%, í TM og er þar með orðin stærsti hluthafi félagsins. Heildarsumma þeirra viðskipta er rúmir 2,2 milljarðar króna.Næstu hluthafar, samkvæmt áðurnefndum lista frá 6. maí, eru Gildi - lífeyrissjóður með 9,13% og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,02%.

Stefnt var að því að safna allt að fjórum milljörðum króna í hlutafjárútboði Stoða. Undanfarnar vikur hefur félagið fjárfest fyrir samanlagt níu milljarða í Arion banka og Símanum.

Stikkorð: Stoðir TM