Fjárfestingafélagið Stoðir hefur keypt 8,28% hlut í Kviku banka eða 177 milljón hluti. Ef miðað er við núverandi markaðsverð nema kaupin 2,6 milljörðum króna. Eftir viðskiptin eru Stoðir stærsti hluthafi bankans en sjóðurinn átti ekki hlut fyrir, frá þessu er greint í tilkynningum . Lífeyrissjóður verzlunarmanna var áður stærsti hluthafinn með 7,6% hlut.

Kaupin koma til vegna þess að Stoðir hafa selt eignarhlut sinn í TM sem var umfram 9,9%, gegn greiðslu með hlutabréfum í Kviku. „Í ljósi fyrirhugaðs samruna TM hf. og Kviku banka hf. hafa Stoðir hf. dregið til baka umsókn sína um að fara með virkan eignarhlut í TM hf. og hafa því nú selt þann hluta eignarhlutar síns í TM sem var umfram 9,9%, gegn greiðslu með hlutabréfum í Kviku banka,“ segir í tilkynningu.

Þann 25. september síðastliðinn samþykktu stjórnir Kviku banka, TM og Lykils að sameina félögin. Samruninn er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og hluthafa. Ef allt gengur eftir munu hluthafar TM fá 54,4% í hinu sameinaða félagi og hluthafar Kviku banka fá 45,6% hlut. Stoðir var áður stærsti hluthafinn í TM.