Fjárfestingafélagið Stoðir tapaði 3,75 milljörðum króna á síðasta ári eftir tæplega 20 milljarða hagnað árið 2021 og 7,6 milljarða hagnað árið 2020.

Umtalsverðar lækkanir á hlutabréfaverði skráðra félaga kom niður á afkomunni sem samsvarar neikvæðri ávöxtun upp á 7,4%. Stoðir, sem myndaðar voru á grunni gamla FL Group, höfðu vaxið hratt árin þar á undan en eigið fé Stoða þrefaldaðist á árunum 2018 til 2021, úr 17,5 milljörðum í 51 milljarð króna.

Stoðir eru stærsti hluthafinn í Símanum með 15,9% hlut, og stærsti einkafjárfestirinn í bæði Arion banka og Kviku. Stoðir eiga auk þess 6,27% hlut í flugfélaginu Play, 7,26% hlut í Bláa lóninu sem til stendur til að skrá á markað á þessu ári og 40% hlut í Landeldi sem byggir upp fiskeldi á landi á Suðurlandi.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, segir í bréfi til hluthafa í febrúar í tilefni af ársuppgjörinu, að rekstur þeirra félaga sem Stoðir eigi hlut í hafi heilt yfir gengið vel á árinu, þó það hafi ekki endurspeglast í hlutabréfaverði þeirra. Vaxtahækkanir, verðbólga, útflæði úr verðbréfasjóðum og minni áhugi stofnanafjárfesta á innlendum skráðum hlutabréfum hafi leitt af sér lakari þróun á hlutabréfaverði en búist var við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.