Samþykkt var á aðalfundi stoðtækjafyrirtækisins Össurar sem haldinn var í morgun að flytja hagnað síðasta árs til þess næsta. Ekki verður arður greiddur út að sinni.

Greining Íslandsbanka benti á það í tengslum við umfjöllun um uppgjör fyrirtækisins í fyrra að stjórnendur Össurar hafi lýst yfir áhuga á ytri vexti, svo sem með kaupum á fyrirtækjum í stoðtækjageiranum. Hins vegar hafi reynst erfitt að finna ákjósanlega kosti.

„Ef stór fyrirtækjakaup eru ekki í spilunum er líklegt að félagið fari að hefja arðgreiðslur,“ sagði í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, sagði á aðalfundi félagsins í morgun, félagið hafa fram til þessa nýtt handbært lausafé til að styrkja reksturinn, svo sem með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Stjórnendur hafi leitað að álitlegum fyrirtækjum til yfirtöku áfram. Engir álitlegir kostir séu hins vegar í boði. Næsta árið verði hins vegar nýtt til að koma fjármagni til hluthafa, annað hvort í formi arðgreiðslna, með endurkaupum á hlutabréfum eða með blöndu af báðum leiðum.

Hlutabréf félagsins voru skráð í Kauphöllina árið 1999 og hefur aldrei greitt hluthöfum arð. Stjórn Össurar samþykkti á fundi sínum fyrir ári að afskrá félagið í kjölfar skráningar á markað í Kaupmannahöfn. Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, sagði ástæðuna þá að íslenski markaðurinn geti ekki lengur stutt við vöxt Össurar þar sem íslenska krónan sé ekki samþykkt á alþjóðavísu. Þá séu gjaldeyrishöftin skaðleg. Kauphöllin ákvað þrátt fyrir þetta að taka hlutabréf Össurar aftur til viðskipta án samþykkta félagsins fyrir ári síðan.