*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 8. nóvember 2018 19:01

Stóðu á bjargbrúninni

Rússíbanareið WOW air endaði hjá Icelandair Group.

Ástgeir Ólafsson
Tímalína yfir sögu WOW air á forsíðu Viðskiptablaðsins 8. nóvember.

Það voru líklega fáir sem áttu von á því þegar þeir hófu fyrsta alhvíta dag vetrarins síðastliðinn mánudag að rétt fyrir hádegi myndu berast ein stærstu tíðindi í íslensku viðskiptalífi á þessum áratug. Einhvern hefði þó getað farið að gruna að eitthvað stórt væri í vændum þegar Kauphöllin stöðvaði viðskipti með Icelandair Group kl 11.43 án nokkurrar ástæðu að því er virtist. Sex mínútum seinna barst svo tilkynning um að stjórn Icelandair Group hefði gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé WOW air.

Samkvæmt kaupsamningnum mun Skúli Mogensen, sem jafnframt er eini eigandi WOW í gegnum Títan fjárfestingarfélag, fá lágmarki 1,8% hlut í Icelandair Group vegna breytingar á víkjandi láni í hlutafé. Við lokun markaða á miðvikudag nam markaðsvirði þess hlutar um milljarði króna. Þessu til viðbótar getur hann fengið frá 0%-4,8% hlut í Icelandair. Hve stór hluturinn verður mun byggja á niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Miðað við markaðsvirði Icelandair Group við lokun markaða á miðvikudag getur Skúli því fengið á bilinu 1-4 milljarða króna fyrir WOW air. Að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins er líklegra að lokaniðurstaðan verði nær lægri mörkunum en þeim efri. Það skal þó tekið fram að samkvæmt tilkynningunni hefur Títan skuldbundið sig til þess að halda hlutunum í Icelandair Group í a.m.k. 6 mánuði og helming hlutanna í a.m.k. 6 mánuði til viðbótar.

Langur og stuttur aðdragandi  

Þrátt fyrir að tilkynningin um kaupin hafi að einhverju leyti komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, a.m.k hvað varðar hve fljótt þau bar að var þó ljóst að staða WOW air var þung líkt og upplýsingar sem fram komu í fjárfestakynningu vegna nýlegs skuldabréfaútboðs gáfu til kynna, þá sérstaklega hvað varðaði lausafjárstöðu félagsins. Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá á mánudag hófust viðræðurnar milli félaganna tveggja að frumkvæði Skúla Mogensen, stofnanda, forstjóra og eiganda WOW air. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins áttuðu forsvarsmenn WOW air sig á því að lausafjárstaða félagsins væri virkilega slæm eftir að laun og reikningar höfðu verðið greiddir um síðustu mánaðamót. Eins og fram hefur komið hafði Skúli í kjölfarið samband við forsvarsmenn Icelandair Group á föstudagskvöld og stóðu viðræður alla helgina í húsakynnum KPMG í Borgartúni sem enduðu með þeirri niðurstöðu sem áður hefur komið fram.

Atburðarás helgarinnar á sér þó töluvert lengri aðdraganda. Uppgangur WOW air og í raun flugfélaganna beggja hefur verið nær ævintýralegur síðustu ár samfara mikilli fjölgun í komu erlendra ferðamanna til Íslands. Félagið fór úr því að flytja um 110 þúsund farþega árið 2012 í að flytja um 2,8 milljónir farþegar árið 2017 auk þess sem WOW áætlaði í byrjun árs að fjöldi farþega yrði um 3,7 milljónir. Miðað við farþegatölur WOW air á þessu ári má gera ráð fyrir því að sú aukning muni raungerast.

Hagnaður beggja félaga náði hámarki árið 2016 en ytri aðstæður í flugrekstri voru hagstæðar á þessum tíma. Frá haustmánuðum 2014 til ársloka 2015 lækkaði olíuverð um tvo þriðju á sama tíma og meðalflugfargjöld lækkuðu ekki í samræmi við lækkun olíuverðs. Frá ársbyrjun 2016 til dagsins í dag hefur olíuverð hins vegar nærri tvöfaldast en meðalflugfargjöld stóðu nánast í stað. Segja má að vísbendingar um erfiðari rekstraraðstæður flugfélaganna hafi fyrst komið upp í byrjun febrúar 2017 þegar Icelandair sendi frá sér afkomuviðvörun þar sem kom fram að EBITDA félagsins yrði mun lægri en fyrst hafði verið gert ráð fyrir. Umræða um málefni íslensku flugfélaganna hófst þó fyrir alvöru í júlí síðastliðnum þegar Icelandair sendi frá sér afkomuviðvörun um lækkun á EBITDA-spá. Þremur dögum seinna greindi WOW air frá því að félagið hafði tapað 22 milljónum dollara árið 2017. Í þeirri tilkynningu komu þó ekki fram upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins.

Um miðjan ágúst síðastliðinn dró svo til tíðinda þegar fjárfestakynning vegna skuldabréfaútboðs WOW air lak út. Þar kom fram að rekstartap Wow air hefði numið 45 milljónum dollara á tólf mánaða tímabili fram til júníloka 2018. Þar kom einnig fram að lausafjárstaða félagsins væri veik en handbært fé félagsins í lok júní nam aðeins 6 milljónum dollara en til samanburðar nam handbært fé Icelandair 237 milljónum dollara á sama tíma. Fréttir af skuldabréfaútboðinu komu að mörgu leyti á óvart. Í nóvember 2017 tilkynnti WOW air að með sölu- og endurleigusamningi við flugvélaleiguna SKY Leasing á tveimur Airbus A321ceo-vélum væri fjármögnun félagsins tryggð út árið 2019.

Markmið með skuldabréfaútboðinu var að fá 60 til 120 milljónir evra en eins og áður segir þarfnaðist félagið nauðsynlega lausafjár. Þegar útboðinu lauk höfðu 50 milljónir evra safnast auk þess sem selja átti fjárfestum bréf fyrir 10 milljónir evra til viðbótar. Þá var einnig greint frá því að WOW hefði ráðið Arion banka og Arctica Finance til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins innan 12-18 mánaða. Að mati sérfræðinga í flugrekstri sem Viðskiptablaðið ræddi við var staða WOW air mjög dökk þegar skuldabréfaútboð félagsins fór fram og það hafi í raun verið töluvert afrek að ná að klára útboðið. Líkt og áður segir tilkynnti Icelandair Group svo frá því í hádeginu á mánudag að félagið hefði komist að samkomulagi um kaup á öllu hlutafé WOW air. Þessu til viðbótar má einnig geta þess að meðan á skuldabréfaútboði WOW stóð sendi Icelandair Group frá sér aðra afkomuviðvörun þar sem EBITDA-spá fyrir árið í ár var lækkuð enn frekar.

Eins og áður segir hefur rekstrarumhverfi flugfélaganna beggja versnað verulega frá árinu 2016. Hækkandi olíuverð, aukinn launakostnaður, sterk króna og mikil samkeppni hefur gert báðum félögum erfitt fyrir. Það segir t.d sína sögu um stöðuna á flugmarkaði að í uppgjöri Icelandair Group fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs kom fram að meðalflugfargjöld á fjórðungnum hefðu verið um 5% lægri en á sama tíma í fyrra á meðan olíuverð á tímabilinu var hins vegar um 40% hærra. Í raun má segja að hjaðningavíg hafi átt sér stað á flugmarkaði síðustu misserin en mikil samkeppni og framboðsvandi er ein meginástæðan fyrir því að verð á flugfargjöldum voru og eru enn nær ósjálfbær miðað við olíuverð. 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.