Kaupþing keypti síðustu fimm mánuði fyrir fall bankans allt að 75 prósent af öllum hlutabréfum í bankanum sjálfum sem voru til sölu í hverjum mánuði, að því er sagði í frétt Ríkissjónvarpsins í kvöld. Segir þar að starfsmenn Kaupþings hafi markvisst gert tilboð í bréf bankans til að halda verði þeirra uppi.

Vitnað er í kæru Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara þar sem fram kemur að frá júní til október 2008 hafi nettó kaup eigin viðskipta Kaupþings með hlutabréf í bankanum verið á bilinu 60 til 75 prósent af heildarkaupum í Kauphöllinni í hverjum mánuði. Síðasta árið fyrir fall bankans námu þessi kaup 96 milljörðum króna. Þá sagði í frétt RÚV að gögn sýni að daginn áður en Kaupþing féll var 92 prósent af eignasafni eigin viðskipta bankans bréf í bankanum sjálfum. Frá apríl 2007 hafi stöðu bankans í eigin bréfum verið leynt fyrir stjórninni með því að falsa skýrslur þar sem staðan átti að koma fram.