Gengi krónunnar hefur verið mjög stöðugt bæði í október og það sem af er nóvember eftir að hafa veikst nokkuð í september. Greining Íslandsbanka segir að veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hafi verið fremur lítil og sérstaklega núna í nóvember. „Þá hefur Seðlabankinn ekki verið með inngrip á þeim markaði frá miðjum október, sem er lengsta tímabil án inngripa síðan í júlí á þessu ári,“ segir Greining Íslandsbanka.

Greining Íslandsbanka segir að vegna stöðugri krónu sé rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila öllu stöðugra hvað þetta varðar en var fyrir ári. Krónan hafi auk þess verið um 3% sterkari gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta það sem af er nóvember en á sama tíma í fyrra og yfir síðustu þrjá mánuði hafi hún verið ríflega 2% sterkari en á sama tíma í fyrra. Afraksturinn sé lægri verðbólga og verðbólguvæntingar.

„Tímasetning aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og sterkari krónu er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að framundan eru kjarasamningar þar sem verðbólguvæntingar eru mótandi fyrir þær launahækkanir sem samið verður um og þar með þá verðbólgu sem í fylgir í kjölfarið. Verðbólgan hefur nú lækkað úr 4,3% í ágúst niður í 3,6% í október,“ segir Greining Íslandsbanka og bendir á að verðbólguvæntingar fyrir næstu mánuði hafi lækkað.