Plain Vanilla endurskipuleggur nú starfsemi sína hér á landi í kjölfar kaupa bandaríska leikjarisans Glu Mobile á stórum hlut í fyrirtækinu. Stefnt er að sameiningu fyrirtækjanna tveggja á næstu 15 mánuðum. Stöðugildum mun fækka um 14 við breytingarnar, en starfsmenn fyrirtækisins hér á landi hafa verið á bilinu 70 til 80. Meginþróun leiksins mun áfram vera hér á landi.

Plain Vanilla og Glu ætla í sameiningu að einblína á þróun QuizUp spurningaþáttarins. Gert er ráð fyrir að frumsýning þáttarins verði í Bandaríkjunum og Bretlandi næsta haust og að spilurum muni fjölga í kjölfar frumsýningar þáttarins.

Plain Vanilla stefnir að því að tekjur félagsins verði umfram útgjöld innan sex mánaða og gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir hagnaði af árinu í heild sinni. Markmiðinu ætla þeir annars vegar að ná með því að afla meiri tekna í samvinnu við Glu Mobile Inc. og hins vegar með samrekstri á ákveðnum sviðum með skila mun samlegðaráhrifum.

Fyrirtækið segir að hingað til hafi áherslan verið á að fjölga notendum óháð tekjum og var tekin meðvituð ákvörðun um að forðast beinar auglýsingar innan leiksins. Þeirri stefnu hefur nú verið breytt og áhersla er lögð á að fyrirtækið skili hagnaði í aðdraganda væntanlegrar sameiningar Plain Vanilla við Glu Mobile.