Stöðugildum á aðalskrifstofum ráðuneytanna hefur fjölgað hratt undanfarin ár og launakostnaður aukist samhliða. Þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þegar ráðuneytum var fækkað í hagræðingarskyni eftir efnahagshrunið virðast ekki eiga við í dag.

Fjögur ráðuneyti hafa bæst við frá árinu 2017 og þó ætla megi að það hafi spilað stórt hlutverk er erfitt að sjá að það eitt skýri svo mikla fjölgun stöðugilda og aukningu launakostnaðar. Breyttar pólitískar áherslur meðal annars gætu haft einhver áhrif en velta má fyrir sér hvort það réttlæti umrædda fjölgun. Þá er strembið að bera saman þróun hjá hverju ráðuneyti fyrir sig þar sem verkefni hafa ítrekað verið færð á milli.

Árið 2022, þegar umfangsmestu breytingarnar voru gerðar, samþykkti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að biðja forsætisráðuneytið um að skila stöðuskýrslu um framgang og innleiðingu breytinganna. Í umsögn 1. minni hluta nefndarinnar var ýmsum spurningum velt upp.

„Stóra spurningin er að sjálfsögðu hvort þessi breyting styrki stjórnsýslu ráðuneytanna og styðji við sérþekkinguna sem nauðsynleg er til að halda úti opinberri stjórnsýslu og bæti þar með árangur hennar. Á þessari stundu er svarið óljóst og aðeins reynslan mun leiða það í ljós,“ sagði í umsögninni.

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir því í lok síðasta árs að ríkisendurskoðandi myndi gera stjórnsýsluendurskoðun á undirbúningi breytinganna og þeim afleiðingum sem þær höfðu í för með sér. Beiðnin var leyfð en skýrsla hefur ekki enn borist.

Nánar er fjallað um vöxt Stjórnarráðsins í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.