Þrátt fyrir áföll sem riðið hafa yfir undanfarnar vikur, á borð við gjaldþrot WOW air og hvarf loðnunnar, eru litlar líkur á því að stöðugleika fjármálakerfisins sé ógnað. Til þess eru þau einfaldlega ekki nægilega stór í ljósi hins mikla viðnámsþróttar sem þjóðarbúið og fjármálakerfið búa við. Þetta kemur fram í formála Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, í riti Fjármálastöðugleika sem út kom í dag.

„Þessi viðnámsþróttur birtist í hreinni eignastöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, stórum gjaldeyrisforða, á heildina litið tiltölulega góðri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja og háum eiginfjárhlutföllum og góðri lausafjárstöðu bankanna. Þá er svigrúm hagstjórnar til að bregðast við töluvert og mun meira en víða um heim,“ segir í formála Más.

Í ritinu er tíundað að áhætta kerfisins sé enn innan hóflegra marka en óvissa um framvindu þess hafi þó aukist. Helstu áhættuþættina innanlands sé að finna hjá ferðaþjónustunni og á fasteignamarkaðnum. Hagvaxtarhorfur utan landssteinanna hafi versnað og óróa gæti á mörkuðum.

„Á alla mælikvarða hefur verið samdráttur í ferðaþjónustu á síðustu mánuðum. Ekkert bendir til að breyting verði á þeirri þróun á næstu mánuðum,“ segir í ritinu. Útlán stóru viðskiptabankanna til aðila í ferðaþjónustu námu tæpum níu prósentum af heildarútlánum en hratt hefur dregið úr lánveitingum til greinarinnar síðustu mánuði. Líklegt sé að samhliða samdrætti muni vanskil aukast í bankakerfinu og verða bankarnir að vera undir það búnir að mótaðilaáhætta greinarinnar raungerist.

Hvað viðkemur fasteignamarkaðnum er vikið að því að húsnæðisskuldir heimilanna hafi aukist um tæp sex prósent að raunvirði. Heildarskuldasöfnun hafi þó verið í takt við þróun ráðstöfunartekna og telst, enn sem komið er, hófleg. Þrátt fyrir vaxandi skuldsetningu og hátt húsnæðisverð er velta á markaðnum enn mikil og möguleiki á að kerfisáhætta byggist upp og útlánagæði fasteignalána rýrni ef verð lækkar.

Staða heimilanna, komi til þess að hægi á hagvexti, er metin betri en oft áður. Hreinn auður þeirra hafi aukist mikið, meðal annars vegna hækkandi húsnæðisverð, og veðsetningarhlutfall sé lágt í sögulegu samhengi.

Viðnámsþróttur fyrirtækja veikist að sama skapi lítillega. Vöxtur eiginfjárhlutfalls hafi staðnað, skuldahlutföll hafi hækkað í fyrsta sinn frá 2013 og arðsemi eiginfjár dróst saman. Þá hafi launakostnaður farið hækkandi en hlutfall hans af rekstrartekjum mældist 22 prósent árið 2017. Hefur hann ekki mælst hærri í fimmtán ár.

„Þrátt fyrir merki um að viðsnúningur eigi sér stað í rekstri fyrirtækja og að efnahagsleg skilyrði séu að versna, verður viðnámsþróttur fyrirtækja almennt að teljast mikill. Eiginfjárstaðan er sterk og skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu eru sögulega lágar. Fyrirtækin ættu því almennt að vera vel búin undir minni eftirspurn og minnkandi hagvöxt,“ segir í ritinu.