Standard & Poor's telur að einskiptishagnaður íslenska ríkisins vegna stöðugleikaframlags við afnám gjaldeyrishafta verði að meiri en 20% af landsframleiðslu. Landsframleiðsla í fyrra nam 1.993 milljörðum króna, svo að 20% hennar eru tæpar 400 milljarðar króna.

„Stöðugleikaskilyrðin munu líkast til fela í sér mikinn einskiptishagnað fyrir ríkissjóð, enda þótt sá hagnaður verði minni en ef 39% eignaskattur yrði lagður á þrotabúin. Við og aðrir greiningaraðilar metum það sem svo að hagnaðurinn gæti numið meira en 20% af vergri landsframleiðslu af verður. Í ljósi þess að þetta mat er háð verulegri óvissu, bæði hvað upphæðina varðar og tímasetningu á greiðslum, þá er hún ekki innifalin í efnahagsspám okkar," segir um þetta atriði í nýrri matsskýrslu S&P, en í henni er lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækkuð.

Skuldahlutfall fari undir 50%

Í skýrslu S&P er farið yfir skuldastöðu ríkisins. Spár félagsins gera ráð fyrir því að skuldahlutfallið, að teknu tilliti til innstæðna í Seðlabankanum, verði farið undir 50% af landsframleiðslu fyrir árið 2018.

„Á sama tíma munum við áfram sjá hættumerki fyrir undirliggjandi efnahagsástand á Íslandi," segir í skýrslunni. „Útgjaldaþrýstingur gæti gert vart við sig ef launahækkanir opinberra starfsmanna verða meiri en áætlanir okkar gera ráð fyrir," segir jafnframt. „Að þessu sögðu, þá höfum við endurmetið verðbólguhorfur okkar og hækkað þær verulega vegna mikilla launahækkana sem við spáum á næstu þremur árum."

Þá kemur fram að hætta stafi af ábyrgðum íslenska ríkisins á skuldbindingum Landsvirkjunar og hins „taprekna" Íbúðalánasjóðs. „Ríkið hefur þurft að leggja fram meira en 50 milljarða króna (2,5% af landsframleiðslu árið 2015) í hlutafé til Íbúðalánasjóðs undanfarin ár, og framtíðarþörf sjóðsins á aðstoð gæti verið meiri en núverandi áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir."