Nefndarálit með breytingartilllögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands leggur til að félaginu sem verður stofnað til að annast umsýslu og ráðstafa mótteknum stöðugleikaeignum verði ekki hjá Seðlabankanum eins og er í gildandi lögum.

Í stað þess að Seðlabankinn hafi forræði á félaginu er lagt til að félagið heyri beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem fer með eignir ríkissjóðs. Nefndin telur að með því fyrirkomulagi séu verkefnin leyst í hæfilegri fjarlægð frá ráðuneytinu en ráðherra skipi hins vegar stjórn félagsins. Félagið falli undir eigandastefnu ríkisins auk þess sem ráðherra geri sérstakan samning um verkefni þess. Með þessu verði ábyrgð ráðherra skýrari á heildarframkvæmd verkefnisins, bæði varðandi eignarhald á félaginu og skipun í stjórn.

Meirihluti nefndarinnar telur einnig að Bankasýsla ríkisins eigi að fara með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka en ekki aðra eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem fylgja stöguleikaframlaginu. Meðal annarra eigna sem veitt eru sem hluti af stöðugleikaframlagi eru óbeinir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum sem eru hluti af eignum í eignarhaldsfélögum, og eignir í fjármálafyrirtækjum sem í raun eru úrvinnslueignir.

Í einhverjum tilvikum er um að ræða skráð hlutabréf sem einfalt er að selja á opinn og gegnsæjan hátt á hlutabréfamarkaði. Eðlilegt er að þessir eignarhlutir fylgi öðrum mótteknum eignum og sæti hefðbundinni úrvinnslu og sölu í félaginu. Ýmsir vankantar eru á því að slíkar eignir séu færðar til Bankasýslunnar enda er lagarammi þeirrar stofnunar ekki heppilegur til að taka við hlut ríkisins í eignarhaldsfélögum sem eiga óbeina eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. Í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er auk þess ekki að finna neinar heimildir fyrir Bankasýsluna eða ráðherra til að selja aðra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum en þar eru sérstaklega taldir upp.

Einnig kemur fram að talsverður kostnaður getur fallið til áður en eignir eru seldar, t.d. vegna ráðgjafar, lögfræðiþjónustu og þar fram eftir götunum. Er því lagt til að stofnfé verði 150 milljónir króna til að mæta slíkum eignum, en við slit renni eignir félagsins aftur í ríkissjóð.