Stöðugleikasjóður evruríkjanna (ESM) var formlega komið á laggirnar á fundi fjármálaráðherra myntbandalagsins í Lúxemborg í dag. Sjóðurinn mun hafa þokkaleg fjárráð, eina 500 milljarða evra, jafnvirði tæpra 80 þúsund milljarða íslenskra króna til að slá á áhrif efnahagskreppunnar í Evrópu og koma þeim ríkjum til hjálpar sem þurfa á fjármunum að halda.

Kallað verður eftir framlögum í sjóðinn hjá evruríkjunum í vikunni. Þjóðverjar eiga stærstu hlutdeildina og þurfa að leggja sjóðnum til 27% af heildarfénu.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, verður yfir sjóðnum, sem mun þegar fram líða stundir taka við af björgunarsjóði ESB (EFSF).

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir EFSF þegar hafa veitt nokkrum evruríkjum neyðarlán til að forða þeim frá þroti. Lánin nema nú 190 milljörðum evra sem veitt hafa verið til Grikklands, Írlands og Portúgal. BBC segir spursmál hvort 500 milljarðar evra dugi til að koma í veg fyrir frekari vandræði á evrusvæðinu. Það komi í ljós þegar og ef Spánverjar og Ítalir óski eftir lánveitingum.