Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir stöðugleikaskatt vera eina af lykilaðgerðum stjórnvalda til þess að afnema höftin. Þessu greinir RÚV frá.

Stöðugleikaskattur gengur út á að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika sem náðst hafi samhliða því að afnema höftin. Bjarni segir stjórnarstamstarfið standi traustum fótum.

Eins og VB.is greindi frá lýsti forsætisráðherra því yfir á flokksþingi Framsóknarflokksins um síðustu helgi að hrinda ætti í framkvæmd áætlun um losun hafta áður en þing lyki störfum og að setja hér á sérstakan stöðugleikaskatt. Þá sögðust formenn Pírata og Samfylkingarinnar undrast áform forsætisráðherra um sérstakan stöðugleikaskatt, en hingað til hafi verið talað um útgönguskatt.

Fjármálaráðherra tjáði sig í fyrsta sinn um þessar yfirlýsingar að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann sagði þessi tíðindi ekki eiga að koma á óvart, unnið hafi verið að þessu hörðum höndum á síðustu árum enda sjái hann árið 2015 sem ár aðgerða.

Bjarni segir það gríðarlega mikil vonbrigði að nú séu bráðum liðin sjö ár án þess að slitabúin hafi komið fram með raunhæfa áætlun um nauðasamninga sem hægt sé að fallast á og veita þannig undanþágu frá höftunum fyrir. Hann segir að við getum ekki búið endalaust við það ástand. Slitabúin séu jú eigendur að stórum fjármálafyrirtækjum hér á Íslandi og eru eins einn stærsti áhættuþátturinn varðandi afnám haftanna. Þess vegna geta stjórnvöld þurft að höggva á hnútinn og það þurfi ekki að koma neinum á óvart að skattur er ein af lykilaðgerðunum sem hafi verið horft til í því efni.

Stöðugleikaskattur leið til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika

Bjarni segir stöðugleikaskatt vera skatt sem vísar til þess að öll þeirra vinna gangi út á það að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika sem náðst hafa samhliða því að afnema höft. Hann segir að ríkisstjórnin ætli ekki að sætta sig við að samhliða afnámi hafta verði farið í einhverja rúllettu með hlutina. Hann boðar frumvarp um stöðugleikaskatt á vorþingi en segir höft ekki verða afnumin í einu skrefi.

Yfirlýsingar forsætisráðherra voru ekki ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun, en Bjarni segir að það hafi ekki átt að koma neinum á óvart, stjórnarsamstarfið standi á traustum fótum.