Líklegt er að meiri harka muni verða í kjarasamningsumleitunum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í haust heldur en á seinasta ári. Tímabundinn aðfarasamningur sem var undirritaður þann 21. desember síðastliðinn á milli aðildarsamtaka ASÍ og SA rennur út þann 31. desember næstkomandi og því munu aðilar vinnumarkaðarins setjast að samningaborðinu til að karpa um kaup og kjör á ný í byrjunhausts. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að það sé nokkuð þungt yfir mörgum í aðildarfélögum ASÍ sem telja sig hlunnfarna um launahækkanir sambærilegar þeim sem starfsmenn hins opinbera annars vegar og stjórnendur fyrirtækja hins vegar hafi samið um fyrir sitt leyti, á sama tíma og haldið hafi verið að almennu launafólki að sætta sig við hóflegar nafnlaunahækkanir.

Undir þetta taka bæði Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Gylfi telur starfsmenn hins opinbera ekki hafa snúist á sveif með fólki á almennum markaði um það að fallast á hóflegar nafnlaunahækkanir og samið um mun hærri hækkanir í eigin vasa. Þar að auki liggi nú fyrir að meðaltalshækkun heildarlauna á milli 2012 og 2013 hafi verið níu prósent. Stjórnendur fyrirtækja hafi hinsvegar hækkað um 14,4 prósent í launum á sama tímabili.

„Á sama tíma og þeir voru að tala um og færa rök fyrir því að það ætti að fara fram af hófsemd, þá voru þeir að semja um aðrar hækkanir fyrir sjálfa sig. Að því leytinu til þá finnst mér þetta vera tvískinnungur,“ segir Gylfi. Hann segir stjórnendur hafa vitað fullvel þegar kjarasamningar voru undirritaðir að laun þeirra myndu hækka umfram það sem haldið var að almennu launafólki. Útséð er að aðildarfélög ASÍ verði mun tregari í ár en í fyrra til að fallast á hóflegar nafnlaunahækkanir í þágu lágrar verðbólgu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .