Hagnaður Síldarvinnslunnar í fyrra nam 47,1 milljónum dala, andvirði um 5,4 milljarða króna, en er þá miðað við afkomu fyrirtækjasamstæðunnar. Árið 2014 nam hagnaðurinn 51,8 milljónum dala.

Rekstrartekjur jukust nokkuð milli ára, voru 183,9 milljónir dala árið 2014, en voru 205,6 milljónir í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir var mjög svipaður milli ára, var 63 milljónir dala árið 2014, en 62,1 milljón dala í fyrra. Munurinn á afkomu áranna tveggja skýrist að stærstum hluta af því að fjármagnsliðir voru jákvæðir um 6,2 milljónir dala árið 2014, en um 3,2 milljónir dala í fyrra.

Eignir félagsins um síðustu áramót námu 421 milljón dala, sem er nær óbreytt staða frá því í árslok 2014. Þar af voru fiskveiðiheimildir bókfærðar á um 192,5 milljónir dala. Skuldir lækkuðu um tæpar 15 milljónir dala milli ára og voru um 160,2 milljónir dala um síðustu áramót. Þar af eru langtímaskuldir 94,6 milljónir dala. Eigið fé félagsins eykst nokkuð milli ára og nam um áramótin 260,8 milljónum dala.

Hluthafar í Síldarvinnslunni voru 296 í árslok 2015, en þrír hluthafar eiga meira en 10% hlutafjárins. Samherji hf. á 44,64%, Kjálkanes hf. á 34,23% og Samvinnufélag útgerðarmanna 10,97%.

Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 15 milljónir dollara í arð til hluthafa á árinu 2016, en það samsvarar um 1,7 milljarði króna á gengi dagsins í dag.