Eftir breytingar á stöðumælagjaldi í miðbæ Reykjavíkur kostar nú allt að 225 krónur á klukkustund að leggja í stæði þar sem áður kostaði 150 krónur. Á öðrum stöðum hækkar gjaldið úr 80 krónum í 120 krónur á klukkustund. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg um breytingar hjá Bílastæðasjóði. Hækkunin er sú fyrsta síðan árið 2000.

Þá verða breytingar á gjaldskyldutími á laugardögum. Nýr tími á svæðum 1,2 og 4 verður frá kl 10 til 16 í stað 10 til 13 áður. Opnunartími bílahúsa hefur verið lengdur fyrir skammtímagesti og opna nú sjö á morgnana og eru opin til miðnættis. Nýr opnunartími gildir alla daga ársins í öllum bílahúsum Bílastæðasjóðs, en þau eru m.a. staðsett við Laugaveg, Hverfisgötu, Seðlabankann, Skúlagötu, Vesturgötu og í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá hafa verið sett upp hjólastæði fyrir reiðhjól í öllum bílahúsunum og er frítt að nýta sér þau stæði.