Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu mjólkur frá fjórum kúabúum í Vesturumdæmi og Suðvesturumdæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Ástæður stöðvunarinnar eru skortur á rekjanleika í einu tilfelli og skortur á úrbótum í þremur þrátt fyrir ítrekaðar kröfur Matvælastofnunar.

Í tilkynningunni segir að á einum bæjanna hafi framleiðandi ekki getað sýnt fram á uppruna og rekjanleika mjólkur sem dreift var frá búinu. Á hinum bæjunum voru gerðar ítrekaðar kröfur um úrbætur. Kröfurnar sneru ýmist að ófullnægjandi þrifum, viðhaldi, umhverfi, hönnun, skráningum og/eða leyfum. Búunum var veittur lokafrestur til úrbóta en kröfur Matvælastofnunar voru ekki virtar.

Matvælastofnun hefur skv. lögum um matvæli heimild til að stöðva starfsemi og afturkalla starfsleyfi þegar frávik endurtaka sig og tilmæli stofnunarinnar eru ekki virt. Mjólk frá þessum framleiðendum mun ekki verða afhent til vinnslu fyrr en uppfyllt eru gildandi lög og reglur.