*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 15. september 2021 12:04

Stöðva moltugerð í GAJU vegna myglu

Starfsemi GAJU var stöðvuð þar sem myglugró greindist í þaki og burðarvirki. Sorpa hækkar gjaldskrá sína.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stöðvað hefur verið vinnslu á lífrænum úrgangi í moltu tímabundið í nýju gas- og jarðgerðarstöð Sorpu þar sem myglugró greindist í límtréseiningum í þaki og burðarvirku stöðvarinnar. Stöðvunin er öryggisráðstöfun til að tryggja heilsu starfsfólks og meta umfang vandans að því er kemur fram í tilkynningu Sorpu. Rúmt ár er frá því að stöðin, sem ber nafnið GAJA, opnaði en heildarkostnaður hennar nam ríflega 4,2 milljörðum króna.

„Myndun myglugróa er hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.“

Óháðir sérfræðingar hafa verið fengnir til að gera úttekt á umfangi vandans og leggja fram tillögur til úrbóta. „Upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant og jafnvel villandi á byggingartíma,“ segir í tilkynningunni og vísað er í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

„Öryggi starfsmanna skiptir okkur öllu máli og við vildum bæði tryggja það og hefjast tafarlaust handa við að stemma stigu við mygluvextinum. GAJA er einn hlekkur í að innleiða hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og það er því mikilvægt að stöðin starfi hnökralaust og nái vinnslumarkmiði sínu. Þessi myglugró sem hafa greinst vekja upp spurningar um hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði hennar. Við í stjórn SORPU höfum falið framkvæmdastjóra að leita skýringa á þessu sem allra fyrst,“ segir Líf Magneudóttir, formaður stjórnar Sorpu.

Framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina fóru 1,4 milljarða fram úr kostnaðaráætlun og heildarkostnaðurinn endaði á að vera ríflega 4,2 milljarðar króna. Fyrsta skóflustunga að stöðinni var tekin þann 17. ágúst 2018.

Fleiri vandamál hafa komið upp við GAJA stöðina, en plast, gler og þungmálmar hafa greinst í moltu frá stöðinni. Fram kemur að flokkunarbúnaður í Móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi nái ekki að tryggja stöðinni nógu hreina hráefnisstrauma til moltugerðar, þrátt fyrir 85-90% árangur vélrænnar flokkunar.

Sérfræðingar telji því að ráðast þarf í sérsöfnun á lífrænum úrgangi til að moltan standist kröfur um hreinleika. Fram kemur að undirbúningsvinna þess efnis sé hafin hjá sveitarfélögum og stefnt er að sérsöfnun á höfuðborgarsvæðinu sem fyrst.

Hækka gjaldskrá

Einnig kemur fram að gjaldskrá Sorpu verði hækkuð vegna þeirrar ákvörðunar að hætta að urða úrgang. Sú skýring sem gefin er upp er að ekki sé hægt að endurnýta allan úrgang og því þarf að flytja út brennanlegan úrgang til brennslu. Það sé umhverfisvænni kostur en „eðli málsins samkvæmt mun dýrari valkostur en urðun“. 

Stikkorð: Sorpa GAJA