Útboð Ríkiskaupa og ríkislögreglustjóra vegna innkaupa á einkennisfatnaði lögreglumanna hefur verið stöðvað um stundarsakir þar sem ársvelta þess fyrirtækis sem lægsta boðið átti uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna.

Í útboðinu var tilboði Hiss ehf. tekið í þremur flokkum en tilboð Vinnufata ehf. var metið ógilt þar sem það uppfyllti ekki kröfur útboðsins. Vinnuföt bentu á það fyrir kærunefnd útboðsmála að Hiss hefði ekki uppfyllt veltuskilyrði árið 2018 og að ársreikningar félagsins væru ekki áritaðir.

Stjórnvöldin tvö byggðu á því að í ljósi þess „neyðarástands sem er á landinu“ lægi mikið á að ljúka útboðinu. Að mati kærunefndarinnar var afgreiðsla útboðsins ekki í samræmi við meginregluna um jafnræði bjóðenda og að neyðarástand eða almannahagsmunir gætu ekki hnikað þeim hagsmunum sem Vinnuföt hafa af stöðvun útboðsins.