Viðskipti hafa verið stöðvuð með bréf í SVB Financial Group, móðurfélagi Silicon Valley Bank, eftir að hlutabréfaverð félagsins hafði lækkað um 60% í viðskiptum gærdagsins og 68% til viðbótar í utanþingsviðskiptum. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Bankinn gaf út uppgjör í gær þar sem hann boðaði hlutafjáraukningu vegna fjárhagserfiðleika. Bankinn hefur gert út á viðskipti við sprota- og tæknifyrirtæki en vaxtahækkanir að undanförnu hafa grafið undan fjármögnunarmöguleikum þeirra.

Í frétt CNBC segir hins vegar að tilraunir SVB til að afla nýs hlutafjár hafi ekki borið árangur og nú séu viðræður hafnar um sölu á félaginu.

Áhyggjur eru uppi um að fleiri bankar fylgi í fótspor SVB og tilkynni afskriftir á skuldabréfasöfnum sínum. Þannig lækkaði hlutabréfaverð stærstu banka Bandaríkjanna í gær og hafa evrópskir bankar fylgt í kjölfarið í dag.

Bankavísitala hinnar evrópsku STOXX vísitölu hefur lækkað um 4,1% í dag, þegar þessi grein er skrifuð. Þá hefur hlutabréfaverð HSBC lækkað um 5,2%, UniCredit um 3,7% og Deutsche Bank um 7,4%.

Þá eru miklar lækkanir á markaðnum hér heima og lækkaði OMXI10 vísitalan um 1,11% í viðskiptum dagsins.