Níu þjónustustöðvar og eitt hjólbarðaverkstæði N1 hafa fengið vottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarkerfinu ISO 14001. Þjónustustöðvar N1 eru einu stöðvar olíufyrirtækis á Íslandi með umhverfisvottunina. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að aðalmarkmiðið N1 með umhverfisvottuninni sé að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið. Með markvissum, skipulögðum og viðurkenndum hætti séu gæða-, umhverfis- og öryggismál sífellt í brennidepli hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni er haft eftir Eggerti Benedikt Guðmundssyni, forstjóra N1, að innleiðing á formlegu umhverfisstjórnunarkerfi sé liður í samfélagslegri ábyrgð N1. Með því að fylgja kerfinu og fá óháðan aðila til að taka út og votta starfsstöðvarnar, þá sýni N1 með skýrum og formlegum hætti að fyrirtækið fylgi umhverfisstefnu sinni.