*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. júní 2017 11:01

„Stöðvum kennitöluflakk“

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands leggja meðal annars til að kennitöluflökkurum verði bannað að eiga og reka hlutafélög í allt að þrjú ár.

Snorri Páll Gunnarsson
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, á kynningarfundinum síðastliðinn þriðjudag.
Eva Björk Ægisdóttir

Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) leggja til að heimilt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög eða einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Þetta kom fram á blaðamannafundi samtakana tveggja á þriðjudaginn, þar sem sameiginlegar tillögur starfshóps SA og ASÍ gegn kennitöluflakki voru kynntar.

Kennitöluflakk felur í sér að félag hættir starfsemi eftir gjaldþrot en haldi áfram rekstri í gegnum annað félag með nýrri kennitölu með það að markmiði að komast hjá lagalegum skuldbindingum félagsins, svo sem greiðslu skatta, opinberra gjalda, lífeyris og launa. Hlutafélagaformið er þannig misnotað til að koma fjármunum undan og öðlast ólögmætt samkeppnisforskot á kostnað þeirra sem hlíta lögum og reglum.

Vísbendingar eru fyrir því að háttsemi sem telst til kennitöluflakks sé umfangsmikil á Íslandi. Til dæmis komu 202 framkvæmdastjórar og 481 stjórnarmaður við sögu í þremur eða fleiri gjaldþrotum tímabilið 2008 til 2015. Þá sögð­ ust tæplega þrír af hverjum fjórum stjórnenda íslenskra fyrirtækja í úrtaki 600 stjórnenda að fyrirtæki sín hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kennitöluflakks samkvæmt rannsókn frá árinu 2005. Þriðjungur sagðist hafa orðið fyrir tjóni oftar en sex sinnum.

Áætlað er að íslenskt samfélag verði árlega af tugum milljarða króna á hverju ári vegna kennitöluflakks. Tjónþolar kennitöluflakks eru kröfuhafar (til dæmis fyrirtæki, ríkissjóður, stéttarfélög, lífeyrissjóðir og launafólk), óbeinir kröfuhafar og samkeppnisaðilar. Á endanum er það almenningur sem verður fyrir afleiddu tjóni, með­al annars í formi aukinnar skattheimtu, minni þjónustu og hærra vöruverðs.

Tillögurnar

SA og ASÍ leggja fram eftirfarandi tillögur:

  1. Atvinnurekstrarbannsheimild
  2. Lífeyrissjóðsiðgjöld verði betur vernduð
  3. Nefnd skipuð um hvernig styrkja megi stöðu kröfuhafa
  4. Heimild ráðherra til að slíta félögum skv. 107. gr. hlutafélagalaga færð yfir til Ríkisskattstjóra
  5. Ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur
  6. Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu að þrotabúum félaga
  7. Hæfisskilyrði hlutafélaga nái til skuggastjórnenda
  8. Fræðsla

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.