Á jarðhitaráðstefnu í Hörpu í dag kynnti einn þriggja framkvæmdastjóra Alþjóðabankans, Sri Mulyani Indrawati, stofnun stofnun 65 milljarða króna sjóðs á vegum bankans til stuðnings jarðhitanýtingu í þróunarríkjum. Ísland er aðalsamstarfsaðilinn í þessu verkefni.

Indrawati sagði í ræðu sinni að mjög mikilvægt væri að virkja betur jarðhita til rafmagnsframleiðslu til að draga úr hlýnun jarðar, einkum í þróunarríkjum, sem erfiðara munu eiga með að bregðast við áhrifum hlýnunar. Ísland gæti verið fyrirmynd annarra ríkja sem búa yfir jarðvarmaorku, því Ísland sé alls ekki einstakt hvað varðar aðgengi að jarðvarma. Sagði hún að um fjörutíu ríki búi yfir jarðvarmaorku í nægilegum mæli til að hún geti mætt stórum hluta raforkuþarfar þeirra.

Nefndi hún sem dæmi sitt heimaland, Indónesíu, þar sem talið er að hægt sé að virkja jarðvarma og framleiða allt að 27 gígavött af rafmagni. Rift dalurinn í Afríku, sem nær yfir þrettán ríki, býr svo yfir 14 gígavatta virkjanlegri orku. Þessi orka myndi nægja til að þjónusta 150 milljónir manna. Það muni um minna í heimsálfu þar sem tveir þriðju hlutar fólks hafa ekki aðgang að rafmagni.